Þjónustuverkefni

Eitt af þremur  valverkefnum mínum var ,,Þjónustuverkefni.” Í því fólst að aðstoða í staðlotum við tæknimál og fleira. Hér birtist greinargerð um verkefnið.

Hugleiðingar um valverkefni

Í námskeiðinu Skipulagning náms og fræðslu með fullorðnum eru 30% verkefna að eigin vali. Í sumum tilfellum hefur þetta vafist fyrir nemendum,  mest vegna þess að þeir eru ekki vanir því að hafa mikið um skilaverkefni að segja. Ég hef áður lýst hversu miklum vandræðum ég lenti í haustið 2014, þegar ég stundaði nám á námskeiðinu Fullorðnir námsmenn og aðstæður þeirra, vegna þessa frjálsræðis en þegar kom að Skipulagu og framkvæmd fræðslu með fullorðnum, þekkti ég vinnuumhverfið sem leiðbeinandinn skapaði, sem ég tel byggja á mannhyggju og kenningum um hvernig fullorðnir einstaklingar læra. Það olli mér því engu óöryggi í þetta sinn að ég hafði rammann ekki fullskapaðan fyrir framan mig enda vill leiðbeinandinn, samkv. mannhyggjunámskenningum, að nemendur séu sjálfstæðir, ráði að einhverju leyti hvað þeir læra og hafi gaman að vinnunni.

Samkvæmt kenningum um mannhyggju er hlutverk leiðbeinandans að stuðla að námi fólks. Hann spyr sig hvernig tíma hans og nemenda sé best varið og sveigjanleiki hans mikill. Hann er til staðar fyrir nemandann og hjálpar honum þá leið sem hann vill fara. Mér fannst gott að geta treyst leiðbeinanda námskeiðsins fyrir hæglæsi mínu á ensku og í sameiningu fundum við leið sem gagnaðist mér betur en lestur erlendra bóka – þjónustuverkefni.

Verkefnið felur í sér að aðstoða við ýmis mál tengdum staðlotum og tæknimálum. Það er vilji leiðbeinandans samkvæmt hugsmíðahyggju að nemandinn kafi dýpra í viðfangsefnið og sé nokkuð sjálfráður í vali á viðfangsefni.

Markmið

Markmið og tilgangur verkefnisins var að ég öðlaðist þekkingu og reynslu í verkþætti sem gæti gagnast mér við störf í framtíðinni. Hér er um að ræða möguleika sem bjóðast í fjarkennslu, sérstaklega hvað varðar fjarfundarbúnað auk þess að aðstoða við staðlotur.

Vinnan við verkefnið

Í fyrstu fólst verkefnið í að aðstoða í staðlotu en þegar kom að því að vinna hópverkefni með einstaklingum sem bjuggu dreift, þótti okkur Fundarherbergi góður vettvangur til mótunar þess og skoðanaskipta.

Eins og stundum verður með verkefni sem unnin eru í anda mannhyggju, tók verkefnið á sig óvænta mynd og varð hópverkefnið Design Thinking, þungamiðjan í þjónustuverkefninu. Þar sem ég hélt utan um tæknimálin, stofnaði eigið fundarherbergi, https://c.deic.dk/rke , tók upp fundi og kynningar vann með það og vistaði niðurstöður hópsins inn á vefsíðu námskeiðsins. Meðan á þessu stóð, nýtti ég mér leiðbeiningar á síðu Menntasmiðju en þurfti í neyðartilfellun að leita til leiðbeinadna námskeiðsins, sem greiddi úr flækjum. Við upplifðum á eigin skinni hversu gefandi og gagnleg vinna sem framkvæmd er á þennan hátt – það má því segja að meðan við vorum að vinna að verkefni, sem snéri að fjarnámi, vorum við að prófa okkur áfram í að vinna á þann hátt sem við lögðum til í Design Thinking verkefninu, að yrði gert. Það gaf verkefninu sjálfu meira og áþreifanlegra gildi enda hreif það þátttakendur og skapaði einstaka samheldni og samkennd.

Niðurstaða

Það er í anda námskeiðsins að það er ekki alltaf fyrirséð hvert verkefnið leiðir mann. Þetta verkefni tók á sig nýja mynd þegar við ákváðum að nota fundarherbergið sem samráðsvettvang í verkefninu Design Thinking og þar sem ég var að vinna að þjónustuverkefni, þá sagði ég samstarfsfólki mínu að ég væri í raun í tveimur verkefnum í einu. Ég lærði mjög mikið á því og treysti mér algjörlega til að vinna á þennan hátt, ef ég þyrfti. Eins og annað í námskeiðinu Skipulag náms og fræðslu með fullorðnum, þá kom þetta verkefni á óvart, skoraði mikið á mig en mér fannst skemmtilegt allan tímann, enda er það í anda mannhyggjunnar.

Dagbók

Ég skrifaði dagbók meðan á verkefninu stóð og í verkefninu sem ég skila til leiðbeinandans er hún hér. Fylgir ekki í bloggfærslu.

Heimildir

Edwords, F. (á.á.) What is humanism? Sótt 1. 4. 2014 á  http://americanhumanist.org/Humanism/What_is_Humanism

Hróbjartur Árnason. (2015) Að hjálpa öðrum að læra. Sótt 1.4. 2015 á  http://www.evernote.com/l/ABxzxszBHO1DKL3xUPqCFmwY7cNE2L0BXuw/

4 thoughts on “Þjónustuverkefni”

Leave a Reply