Markmið

Í fyrirlestrinum um markmið fór ég yfir mikilvægi þess að setja sér tímasett, skrifleg og raunhæf markmið. Kennarar verða að hafa gott vald á markmiðssetningu sem spannar allt þekkingarsviðið og virða auk þess markmið nemenda sinna. Ég reifaði flokkunarkerfi Benjamins Bloom og framsetningu Háskóla Íslands á markmiðum sem byggð eru á hans grunni.

Þá skýrði ég frá fimmskiptum hegðunarmarkmiðum Roberts M. Gagné en hann segir að óháð framsetningu markmiða þurfi þau að lýsa því sem nemandananum ber að vita, gera eða finnast. Markmið hans lýsa; kringumstæðum; athöfn; nýrri þekkingu; hvernig og skilyrðum.

Í framhaldinu lýsti ég þrískiptu kerfi Roberts F. Mager við ritun markmiða en samkvæmt honum eru skýrt orðuð markmið grunnur þess að hægt sé að mæla hvort markmiðunum hafi verið náð. Markmið hans lýsa; athöfn/hegðun; skilyrðum og mælikvarða. Mager leggur auk þess áherslu á að rugla ekki saman lýsingu á námskeiði annars vegar og markmiðum hins vegar. Hið fyrra tilgreini ferli en hið síðara útkomu.

Loks fór ég yfir námsmat, sem getur farið fram með ýmsum hætti. Ég minntist á rannsóknargrein þar sem mælt er með flokkunarkerfi í stað markmiðssetningar. Þá lýsti ég manneskju án markmiða sem stjórnlausum dalli en manneskju með markmið eins og vel stjórnuðu fleyi sem siglt er í örugga höfn. Að endingu varpaði ég fram spurningu til samnemenda um eigin markmiðssetningar, í ljósi þess sem á undan var sagt um mikilvægi þeirra og virðingar okkar fyrir þeim markmiðum sem nemendur sjálfir setja. Flestir virtust setja sér einhverskonar markmið, allt frá huglægum upp í heilt myndverk sem fest er á vegg.

Það sem kemur mér mest á óvart er að þrátt fyrir lestur, undirbúning og framkvæmd kynningarinnar átti ég í miklu basli með verkefnið um gerð atferlismarkmiða. Þar dugar greinilega ekkert annað en æfing. Vinnan við eigin markmiðsgerð og endurgjöf, ásamt endurgjöf frá samnemendum skilaði mér þannig mestri þekkingu á markmiðum.

Kær kveðja,
Halla Leifsdóttir

3 thoughts on “Markmið”

Leave a Reply