Notkun leikja í fullorðinsfræðslu

Hér kemur verkefnið frá mér sem fjallar um notkun leikja í fræðslu fyrir fullorðna.
Þakkir til ykkar sem áttuð þátt í verkefninu með því að taka þátt í leikjunum á staðlotu 3 og svara athugasemdum á Facebook.

Við hættum ekki að leika okkur vegna þess að við verðum gömul, við verðum gömul vegna þess að við hættum að leika okkur! Mér finnst þetta skemmtileg tilvitnun sem passar ágætlega við umfjöllunarefni mitt sem ég byggi á fræðilegum grunni fullorðinsfræðslu og einnig á menntunarlegum bakgrunni mínum í íþróttafræði.
Þar sem ég hef mikinn áhuga á hreyfingu, leikjum og fjölbreyttum kennsluaðferðum þótti mér það skemmtileg nálgun að vinna þetta verkefni í samvinnu við þátttakendur á námskeiðinu. Á staðlotu námskeiðisins þann 15.04.2015 fékk ég, í samráði við leiðbeinanda að taka lítillega þátt í kennslunni með því að stýra leikjum með þátttakendum. Við byrjuðum á því að gera léttar upphitunaræfingar til að koma blóðinu á hreyfingu og liðka okkur. Síðan kenndi ég þátttakendum teygjur sem eru góðar fyrir fólk sem vinnur mikið í tölvum. Næst fjallaði ég um nokkrar aðferðir sem geta nýst vel til að skipta fólki í hópa eða brjóta ísinn og síðan fórum við í leik sem er tilvalinn til að láta fólk kynnast á skemmtilegan hátt. Hann byggist í stuttu máli á því að þátttakendur eiga að segja ýmsar staðreyndir um sig og síðan kemur það í ljós hvort þær eigi við um aðra líka.

Eftir staðlotuna kallaði ég eftir viðbrögðum frá þátttakendum á Facebook síðu hópsins til að sjá hvað þátttakendum fyndist um slíka leiki. Viðbrögðin voru mjög jákvæð og fagleg og vitnaði ég í þau í kynningunni. Þau voru jafnframt í anda þess sem komið hefur fram í rannsóknum á notkun leikja í fullorðinsfræðslu.

Leikir eru eitthvað sem flestir hafa gaman af. Þegar notkun leikja í fullorðinsfræðslu er skoðuð má sjá að vel má nota þá til að auka og viðhalda áhugahvöt í námi fullorðinna. Samkvæmt ARCS- módeli Kellers um áhugahvöt eru fjórir meginþættir sem hafa áhrif á áhugahvötina; Athygli, tengsl, sjálfstraust og ánægja. Við getum valið ýmsa mismunandi leiki til að viðhalda athygli og jafnframt notað leiki inn á milli til að halda athyglinni vakandi. Með því að tengja námsefnið við þátttakendur, byggja á reynslu þeirra, kynnast þeim, reynslu þeirra og markmiðum náum við betur að koma til móts við þá í kennslunni. Margir leikir sem snúast um að láta þátttakendur kynnast geta nýst vel að þessu leyti. Til að efla sjálfstraust þátttakenda er mikilvægt að þeir upplifi sigra og velgengni. Leiðbeinandi þarf að finna leiðir til þess að svo verði og það getur hann m.a. gert með leikjum sem reyna á mismunandi færni þannig að allir fái að njóta sín. Ánægju og umbun fyrir góða frammistöðu er hægt að ná fram með ýmsum leikjum. Gagné talar jafnframt um innri og ytri áhugahvöt þar sem sú innri lítur að námsmanninum sjálfum, tilfinningum hans og upplifun en sú ytri að aðstæðum í kring. Þessa þætti getum við haft áhrif á með leikjum (Gagné, 2004).

Leikir geta haft mörg mismunandi markmið. Þeir geta nýst vel til að fá fólk til að kynnast, auka samvinnu, auka samskipti, slá á fordóma, skapa tilbreytingu, auka skemmtanagildi, stuðla að reynslunámi og komið blóðinu á hreyfingu, auk þess að vera góðir til að brjóta upp kennsluna. Þeir geta verið sérlega gagnlegir þegar um fjarnám er að ræða og nemendur koma saman í staðlotum. Markmið með slíkum lotum er gjarnan að fá nemendur til að hittast, kynnast og vinna saman. Þar geta leikir komið að góðu gagni til að brjóta ísinn og flýta fyrir kynnum og auka samskipti, sérstaklega þegar þátttakendur koma úr ólíku umhverfi (Þorbjörg Halldórsdóttir, 2006).

Í upphafi námskeiðs getur verið ákveðið stress til staðar hjá þátttakendum og getur það haft áhrif á hve vel fólk lærir. Því er mikilvægt að komast yfir það sem fyrst og eru leikir tilvaldir til þess. Eitt af mikilvægustu hlutverkum leiðbeinandans er að skapa jákvætt félagslegt umhverfi og getur þetta verið liður í því (Hróbjartur Árnason, 2005).

Samkvæmt þeim sex áhersluatriðum sem Knowles tilgreinir um fullorðna námsmen, þá eru þeir sjálfstæðir, áhugasamir og hafa hvatningu og skýr markmið til að læra. Þeir vilja vita tilganginn með því sem þeir þurfa að læra og byggja nám sitt á fyrri reynslu. Það er mikilvægt að leiðbeinandi sé meðvitaður um þessa þætti og ef hann notar leiki í kennslunni þá er mikilvægt að markmiðin séu skýr. Leikina er jafnframt hægt að tengja við áhugahvötina og nýta þá til að kynnast reynslu og markmiðum þátttakenda en einnig þarf að gæta að því að frumkvæði einstaklingsins fái notið sín (Knowles, 1998).

Í rannsókn sem framkvæmd var á notkun leikja í fullorðinsfræðslu, kemur fram að þátttakendur eru almennt jákvæðir gagnvart notkun leikja í kennslu og vildu gjarnan að þeir væru meira notaðir. Þeim þykir mikilvægt að markmiðin séu skýr með leikjunum og finnst lærdómsgildi kennslunnar halda sér þegar leikir eru notaðir. Það sem mælti helst á móti leikjum að mati leiðbeinenda var að þeir kröfðust aukins undirbúnings fyrir kennsluna en nemendur áttu það til að finnast það barnalegt eða kjánalegt í upphafi að fara í leiki (Rita Kumar, 2007).

Heimildir
Gagné, R. M., Wager, W. W., Golas. K. C. og Keller, J. M. (2004). Principles of Instructional Design (5. útgáfa). Belmont, CA: Thomson Wadsworth.
Hróbjartur Árnasson. (2005). Hvað er svona merkilegt við það… að vera fullorðinn? Í GÁTT, ársrit Fræðslumiðstöðvar Atvinnulífsins. Reykjavík: Fræðslumiðstöð Atvinnulífsins, bls. 14-22.
Knowles, M.S, Holton, E.F, Swanson, R.A, (1998). The Adult Learner, The Definitive Classic in Adult Education and Human Resource Development (5. útgáfa). Houston: Woburn, Butterworh- Heineman.
Rita Kumar, R. L. (2007). Games as an Interactive Classroom Technique: Perceptions of Corporate Trainers, College Instructors and Students. International Journal of Teaching and Learning in Higher Education, 19, 53-63. Sótt 22.04.2015 af http://files.eric.ed.gov/fulltext/EJ901287.pdf
Þorbjörg Halldórsdóttir. (2006). Gildi leikja í íslenskukennslu fullorðinna. Sótt 20.04.2015 af http://www.arnastofnun.is/solofile/1012391


 

 

 

3 thoughts on “Notkun leikja í fullorðinsfræðslu”

  1. Flott kynning Laufey og ekki síst mikilvægt að fá fullorðna til að leika sér og stíga aðeins út fyrir þægindarammann. Þessi þáttur er oft mjög vanmetinn og mætti ég t.d. taka sjálfa mig í gegn og nota leiki meira í kennslunni. Það sem vex manni svo oft í augum er fjöldi nemenda í hóp. Við kennarar þurfum kannski að hugsa aðeins út fyrir rammann (kennslustofuna) 😉

Leave a Reply