Óformlegt nám í formlegum námsaðstæðum

Kynning á rannsóknargrein
Greinin fjallar um belgíska rannsókn á óformlegu námi fullorðinna í formlegum námsaðstæðum. Rannsóknin var gerð af sjö manna rannsóknarteymi undir forystu Jeltsen Peeters. Greininn er mjög nýleg og birtist í septemberhefti af Journal of Adult Development á síðasta ári. Þegar þetta er ritað hafa enn ekki verið skráðar tilvitnanir í hana.

Óformlegt nám
Áður en höfundar lýsa rannsókninni og niðurstöðum hennar gera þeir grein fyrir hugtakinu óformlegt nám og vísa þar til fjölda fræðimanna og rannsókna. Þar kemur fram að óformlegt nám á sér stað í skipulögðum námsaðstæðum en utan hinnar formlegu námskrár: “Informal learning is assumed to take place within formal educational institutions but outside their formal curricula“ (Peeters, 2014, bls. 183).  Fyrri rannsóknir benda til að formlegt nám og óformlegt styðji og bæti við hvort annað og þess vegna ætti að huga að því samhliða þegar við skipuleggjum nám annarra. Þá er bent á að óformlegt nám getur haft bæði jákvæðar og neikvæðar afleiðingar, það getur t.d. verið ýmist hvetjandi eða letjandi til frekara náms. Af þessum ástæðum er mikilvægt að huga að óformlegu námi ekki síður en formlegu  í hönnun námsferla. Það er ekki ásættanlegt að láta það tilviljunum eftir hvort og hvernig það fer fram eða hvaða áhrif það hefur. Allt of oft er þó horft framhjá þessum mikilvæga þætti náms og litið á hann sem sjálfsagðan hlut sem fylgi formlegu námi af sjálfu sér.

Markmið og rannsóknarspurningar
Markmið rannsóknarinnar var að skoða óformlegt nám innan formlegra námsaðstæðna, með hliðsjón af reynslu þátttakenda, til þess að varpa ljósi á tengsl á milli formlegs og óformlegs náms. Settar voru fram þrjár rannsóknarspurningar:

-Hvers konar þekkingu, hæfni og viðhorf lærum við óformlega? Hvernig fer það nám fram?
– Hvernig tengist formlegt og óformlegt nám?
– Hver er reynsla fullorðinna nemenda, kennara og skipuleggjenda náms af óformlegu námi?

Vettvangur og þátttakendur
Vettvangur rannsóknarinnar var námskeið til undirbúnings fyrir starf í félagsþjónustu. Formleg námskrá námskeiðsins fól í sér starfsþjálfun, s.s. að læra um heilbrigði, hreinlæti, umönnun, samskipti og fleiri þætti sem eru mikilvægir í þessu tiltekna starfi. Hins vegar var námskeiðið sérstakt að því leyti að þar var líka lögð áhersla á óformlega námskrá. Óformlega námskráin miðaði að því að valdefla konur sem eru lítið menntaðar og búa við fátækt. Námskeiðið stóð yfir í eitt ár 2010-2011 og þátttakendur voru 15 konur á aldrinum 19-55 ára.

Aðferð
Rannsóknin var eigindleg þar sem tekin voru hálfstöðluð viðtöl við alla þátttakendur ári eftir að námskeiðinu lauk. Einnig var talað við tvo kennara námskeiðsins og tvo skipuleggjendur. Í viðtölum við þátttakendur var lögð áhersla á að fá fram hvað þeir töldu sig hafa lært fyrir utan formlegu námskrána og hvaða áhrif þátttaka í námskeiðinu hafði haft á þeirra líf. Viðtölin voru „djúp“ og tóku að meðaltali um eina og hálfa klukkustund. Í greiningunni var skoðað hvaða óformlega nám átti sér stað á námskeiðinu, hvernig það fór fram og hvernig það tengdist formlegu námi námskeiðsins.

Niðurstöður
Hvað lærðu þátttakendur óformlega?
Það kom fram mikil breidd í óformlegu námi í svörum þátttakenda. Óformlegt nám kom fram á mismunandi sviðum, faglega, námslega, persónulega og félagslega. Á faglega sviðinu öðluðust þátttakendur jákvæð viðhorf og áhuga gagnvart starfsvettvangnum sem sýndi sig m.a. þegar einn þátttakandi fór sjálfur að leita upplýsinga og læra um skyndihjálp utan námskeiðsins. Á námslega sviðinu fengu þátttakendur trú á eigin getu til að læra. Þær kynntust fleiri leiðum og nýjum aðferðum til að læra og upplifðu að nám getur verið áhugavert og jafnvel skemmtilegt. Á persónulega og félagslega sviðinu var mjög einstaklingsbundið hvað kom fram. Þátttakendur nefndu ýmsa hæfni  sem þær töldu sig skorta en þjálfuðust í á námskeiðinu. Sjálfstraust og þolinmæði var meðal þess sem þar kom fram auk þess að læra um aðra menningu með því að umgangast konur frá öðrum löndum. Margir litlir persónulegir sigrar komu einnig fram, t.d. aukinn orðaforði, geta til að tjá sig á kurteislegan máta auk þess sem einn þátttakandi þjálfaðist í að tjá sig þrátt fyrir að stama. Óformlegt nám var þannig mjög fjölbreytt og mun einstaklingsbundnara hvað kom út úr því en formlega náminu.

Hvernig lærðu þátttakendur óformlega?
Gagnagreining sýndi fram á að þriðjungur þátttakenda tók þátt í sjálfstýrðu námi samhliða námskeiðinu. Konurnar uppgötvuðu ný áhugamál og leiðir til þess að læra sjálfar t.d. í gegnum tölvur, bækur og tímarit. Í framhaldinu fóru þær að taka meiri ábyrgð á og stýra eigin námi. Þátttakendur lærðu oft af samræðum við aðra, bæði kennara og aðra nemendur, og af óformlegri jafningjaleiðsögn. Það hafði jákvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra að átta sig á að þær gætu miðlað og leiðbeint öðrum. Þær lærðu að treysta á sig sjálfar og aðra nemendur þegar kennari var ekki til staðar. Í viðtölum kom fram að konurnar bjuggust ekki við að læra á annan hátt en formlega og það kom þeim á óvart þegar þær uppgötvuðu hvað þær höfðu í raun og veru lært margt. Það var mikilvægt fyrir þær að gera sér grein fyrir því sem þær höfðu lært óformlega og hvetjandi til að nota það sem þær höfðu lært og til að halda áfram að  læra. Óformleg námskrá námskeiðsins fól í sér ákveðin viðhorf og vinnubrögð sem voru mikilvæg fyrir þátttakendur faglega og persónulega. Áhersla var lögð á að kennarar námskeiðisins byggju sjálfir yfir þessum eiginleikum og sýndu þá í öllum samskiptum við nemendur. Fram kom að nemendur lærðu af framkomu kennaranna, hvernig þeir höfðu samskipti við nemendur og hvernig þeir nálguðust verkefni.

Hvernig tengjast óformlegt og formlegt nám?
Óformlegt nám leiddi til áhuga á frekara formlegu námi og virkni í sjálfstýrðu námi. Þátttakendur uppgötvuðu að þeir geti haldið áfram að læra sjálfir, bæði innan skóla og utan. Námskeiðið studdi þannig við ævinám þátttakenda (lifelong learning). Einnig kom fram að óformlegt nám hafði áhrif á nám annarra en þátttakenda sjálfra. Jákvæð upplifun þeirra af náminu varð t.d. til þess að þær hvöttu börnin sín til að standa sig vel í skóla og lögðu áherslu á mikilvægi náms við þau. Þá komu tengsl formlegs náms og óformlegs vel í ljós þegar þátttakendur lýstu hvernig óformlegt nám styður við formlegt nám, gerir það áhugaverðara og árangursríkara og skilar sér í betri skilningi á formlega náminu.

Lærdómur
Hvaða lærdóm má draga af niðurstöðum rannsóknarinnar þegar við skipuleggjum námsferla? Fyrir það fyrsta benda niðurstöður til að margvíslegt óformlegt nám eigi sér stað innan formlegra námsaðstæðna. Óformlegt nám er mikilvægt fyrir nemendur persónulega og félagslega ekki síður en námslega og faglega. Það er því full ástæða til að gefa óformlegu námi gaum, rétt eins og því formlega, við hönnun námsferla.  Nokkrir þættir koma fram sem styðja við óformlegt nám fullorðinna nemenda. Í fyrsta lagi ætti að leggja áherslu á sjálfstýrt nám, að kenna nemendum hvernig þeir geta sjálfir verið leiðandi í námi sínu.  Í öðru lagi að skapa vettvang þar sem nemendur ræða saman og leiðbeina hver öðrum. Í þriðja lagi skiptir það máli að kennarinn sé góð fyrirmynd fyrir nemendur varðandi þau gildi sem á að miðla og góð samskipti. Að lokum að hvetja nemendur til að ígrunda og leggja mat á hvað þeir hafa lært. Í greininni er vitnað til fjölda annarra rannsókna og fræðimanna sem styðja í meginatriðum við þær niðurstöður sem þar koma fram. Það sem mér fannst áhugaverðast við lestur greinarinnar var að átta mig á hversu mikilvægur partur af námi fer fram óformlega og hvernig það sem við lærum óformlega mótar að stórum hluta hver við erum. Mig grunar að fæstir sem skipuleggja nám geri sér grein fyrir hvað þetta skiptir í raun og veru gríðarlega miklu máli en rannsóknin sýnir að það er full ástæða til að hafa það í huga.

Til umhugsunar
Hvaða óformlega nám á sér stað í þessu námskeiði og hvernig fer það fram? Í lok kynningar var þessari spurningu varpað fram og fengust góðar umræður um hana. Hróbjartur benti á að óformlegt nám væri samkvæmt Evrópustaðli skilgreint út frá námsaðstæðum. Samkvæmt þeirri skilgreiningu fer óformlegt nám ekki fram innan skólakerfisins þar sem nemdendur útskrifast með prófgráður heldur er það skilgreint sem það nám sem fram fer í tómstunda- og félagsstarfi. Það vekur athygli að þessi skilgreining stangast á við þær skilgreiningar og forsendur sem höfundar gefa sér í greininni. Þar kemur skýrt fram að óformlegt nám eigi sér stað í skólum sem og öðrum formlegum námsaðstæðum og sé það nám sem falli utan námskrárinnar. Önnur athyglisverð ábending kom fram í umræðum um það hvenær nám er formlegt og hvenær óformlegt. Ef það er t.d. sett inn í markmið námskrár að efla sjálfstraust nemenda er þá um formlegt nám að ræða? M.ö.o. ef við fellum óformlegt nám inn í námskrá verður það þá formlegt? Þessar vangaveltur og fleiri hafa valdið mér nokkrum heilabrotum eftir kynninguna. Ég renndi yfir greinina aftur og varð engu nær en hugga mig við að þrátt fyrir að svörin séu ekki alltaf á reiðum höndum er hollt að spyrja spurninga og velta vöngum.

Heimild

Peeters, J., De Backer, F., Buffel, T., Kindekens, A., Struyven, K., Zhu, C., & Lombaerts, K. (2014). Adult Learners’ Informal Learning Experiences in Formal Education Setting. Journal of Adult Development21(3), 181-192.

 

 

 

 

4 thoughts on “Óformlegt nám í formlegum námsaðstæðum”

  1. Glæsilegt Ebba!;)

    Ég var súr að missa af kynningunni og ekki skánaði ástandið þegar ég komst að því að upptakan reyndist ónýt í ofan á lag;( Þessi samantekt bætir þó allt sem áður er upp talið og yfir vælt=)

    Kv.
    HL

  2. Mér fannst þetta vera vönduð og góð kynning og efnið athyglisvert. Það var gaman að fara svona vel yfir þennan efnisþátt því það hjálpar okkur að veita hinu óformlega námi meiri athygli bæði hjá okkur sjálfum á þessu námskeiði og einnig í okkar eigin námskeiðsskipulagningu.

Leave a Reply