Bókardómur

Bókardómur um Workshops: Designing and Facilitating Experiential Learning

 

Bókardómur

  • Heiti bókar: Workshops: Designing and Facilitating Experiential Learning
  • Höfundar: Brooks-Harris, J. E., & Stock-Ward, S. R
  • Bókfræðiupplýsingar: Útgefandi SAGE Publications, Inc., Útgáfu ár 1999.  Blaðsíðufjöldi 188 auk 19 upphafssíðna í rómverskum tölum.
  • Tilvísanir: Fjöldi tilvísana á Google Scholar er 71.  Sótt 27.2. 2015 af

https://scholar.google.is/scholar?q=Workshops+Designing+and+Facilitating+Experiential+Learning&btnG=&hl=en&as_sdt=0%2C5#0

Um höfunda:  Jeff  E. Brooks-Harris er doktor í sálfræði við University of Hawai’i í Minoa.  Hann hefur staðið fyrir mörg hundruð smiðjum um tugi efna, einkum við fjóra háskóla.  Hann stýrir vefsíðunni Workshop central.

Susan R. Stock-Ward er doktor í sálfræði við University of Akron.  Smiðjureynslu hefur hún einkum frá fimm háskólum sem hún hefur unnið við.  Þetta er hennar fyrsta bók.

Uppbygging bókar: Á eftir forsíðu og síðu með bókfræðiupplýsingum kemur efnisyfirlit á níu blaðsíðum.  Þar á eftir er síða með upplýsingum um hverjum höfundar tileinka bókina.  Formáli og inngangur kemur þar á eftir og þá meginefni bókarinnar á 174 síðum.  Á síðum 175-188 er svo heimildaskrá, atriðaorðaskrá og upplýsingar um höfunda.

Meginefni bókarinnar er í níu köflum.  Að lokinni kynningu viðfangsefnis hvers kafla er varpað fram spurningum þar sem lesanda gefst kostur á að ígrunda sína reynslu varðandi viðfangsefnið.  Inn í textanum eru síðan tekin dæmi um viðfangsefnið og í lok hvers kafla eru verkefni sem hjálpa lesandanum við að gera áætlun um það hvernig hann getur nýtt sér efni kaflans.  Í köflum 7-9 eru auk þess spurningar sem gert er ráð fyrir að svarað sé í bókina, sem aðstoðar lesandann við að meta stöðu sína varðandi viðfangsefni kaflans.

 

Innihald: Í inngangi er tilgangur bókarinnar sagður vera að kynna módel fyrir hönnun á smiðjum (e.:Workshops) og kennslu, sem byggir á því hvernig mismunandi fólk hugsar og lærir.  Módelið tekur mið af kenningu sem lýsir bæði reynslunámi og einstaklingsbundnum aðferðum við nám.  Höfundar benda á að bókin geti nýst bæði þeim sem hafa mikla og litla reynslu við hönnun smiðja og kennslu á  því námsformi.  Þeir sem hafa mikla reynslu geti nýtt sér einstaka kafla en hinir reynsluminni hafi gagn af allri bókinni.

Á eftir inngangi eru níu kaflar.  Sá fyrsti er grunnkafli þar sem hugmyndafræðinni er lýst og hún útfærð stuttlega.  Annar kafli fjallar um ólíkar þarfir nemenda.  Í þriðja til áttunda kafla er fjallað um einstaka þætti frá undirbúningi að námsmati og í níunda kafla er tekið á aðferðum við að bæta hæfni sína við hönnun og kennslu með smiðjum.

Í fyrsta kafla er smiðjum  lýst sem vinnuhesti náms fullorðinna og símenntunar. Rætt um fimm áhersluatriði í smiðjum: Færni, lausn vandamála, aukna þekkingu, kerfisbreytingu og sjálfsuppbyggingu.  Oft er smiðjan blanda af fleiri en einum þætti.  Kynnt er til sögunnar módel Kolbs sem byggir á reynslunámi (experiential). Kolb byggir módel sitt á vinnu Kurt Lewin um starfendarannsóknir og tilraunastofuþjálfun.  Einnig á hugmyndum Dewey og Piaget.  Reynslunám er samsett úr fjórum megin þáttum: beinni reynslu, ígrundaðri athugun, óhlutbundinni hugsun og virkri reynslu.  Þegar smiðja er búin til þarf að vinna að þremur megin verkefnum.  Í fyrsta lagi að átta sig á þátttakendum.  Annað er að búa til alhliða smiðju sem tekur á viðfangsefninu fyrir tiltekinn hóp við tilteknar aðstæður.  Það þriðja er að kenna í smiðju með þeim hætti að kennslan stuðli að virku námi.

Í öðrum kafla er fjallað um leiðir til að mæta þörfum ólíkra nemenda við hönnun smiðju.  Annars vegar með því að hafa mismunandi aðferðir sem hæfa ólíkum námsmönnum og hins vegar að mæla þarfir þeirra og hanna smiðju út frá niðurstöðum mælinga.

Í þriðja kafla er fjallað um undirbúning smiðjuhönnunar sem felst í söfnun upplýsinga og setningu markmiða.  Tekið er áhugavert dæmi um að í stað þess að fyrirtæki hugsi fyrir starfsmenn þá vilji fyrirtæki starfsmenn  sem hugsa fyrir þau (bls. 43).  Smiðjur eru sagðar einkar heppilegar til að mæta slíkum óskum.

Fjórði kafli fjallar um almenn atriði í smiðjum.  Svo sem mikilvægi þess að smiðjan hafi upphaf og endi.  Einnig að um sé að ræða hinar fjórar mismunandi námsaðferðir í samræmi við módelið.  Í fyrsta lagi að ígrunda reynslu.  Í öðru lagi að tengja við yrti upplýsingar, kenningar og hugtök.  Í þriðja lagi að gera tilraunir með viðfangsefnið og í fjórða lagi að skoða hvernig nýta megi námið í frekari vinnu að lokinni smiðju.  Í lok kaflans eru gefið gagnlegt dæmi um skipulag tveggja til fjögurra stunda smiðju.

Fimmti kafli er síðan nánari útfærsla á þeim grunnatriðum sem eru til umfjöllunar í fjórða kafla með fjölmörgum dæmum um kennsluaðferðir á einum 16 síðum.

Í sjötta kafla er fjallað um námsumhverfi og aðstæður.  Námsumhverfi, segir á blaðsíðu 104, snýst meira um það hvaða tilfinningu þú hefur fyrir því en hvernig að lítur út.  Á blaðsíðu 107 er einnig nefnt að það þurfi að hafa tengsl við námsefnið, kennarann og aðra þátttakendur; ekki bara námsefnið eins og oft vill verða.

Sjöundi kafli snýr að kennaranum og hvað hann getur gert til að stuðla að námi út frá þeim fjóru mismunandi námsaðferðum sem ræddar voru í fjórða kafla.  Hver þáttur er ræddur en stór hluti kaflans fer í að lýsa aðferðum og dæmum um þær. Í upphafi kaflans eru einnig spurningar sem lesandinn getur svarað og fundið út hve oft hann beitir mismunandi aðferðum.

Áttundi kafli fjalla um námsmat.  Þar er velt upp spurningum um tilgang mats, hver á fá upplýsingar um það og hver metur.  Einnig eru skoðaðar aðferðir við mat svo sem leiðsagnarmat, heildarmat, formlegt og óformlegt.  Í lok kaflans er síðan fjallað um mikilvægi matsáætlunar.

Í lokakaflanaum er fjallað um hvernig lesandinn getur bætt smiðjur sínar.  Tekið er á hönnun, stýringu námsaðstæðna og námsaðferða.  Einnig er fjallað um hvernig upplýsinga er aflað til að greina það sem þarf að bæta svo sem með sjálfsmati, ábendingum frá samstafsmönnum og námskeiðsbeiðanda, svo og að fylgjast með kennslu í öðrum smiðjum.

Mat.

  • Bókin hentar að mínu mati fyrir alla kennara og skipuleggjendur náms fyrir fullorðna og þá sérstaklega þá sem eru að nýta sér smiðjur sem aðferð við nám og kennslu eða hafa hug á því að nota þá gerð námskeiða. Er einnig almennt gangleg fyrir alla kennara og skólamenn.
  • Mér finnst textinn góður og lipurlega skrifaður. Engar málalengingar eins og gjarnan eru í amerískum bókum og ekki heldur of háfleygur eins og mér finnst breskar fræðibækur stundum vera.
  • Uppsetning bókarinnar er í samræmi við inntakið í módelinu sem er verið að kynna og fjalla um. Bókin er í senn góð fræðibók og hagnýt námsbók í smiðjukennslufræðum.
  • Mér finnst að höfundar hafi náð markmiði sínu með bókinni.
  • Sakna þess helst að sjá ekki umræðu um mögulega nýtingu smiðja í fjarkennslu.
  • Bókin getur nýst vel í námskeiðinu Skipulagning og framkvæmd fræðslu með fullorðnum þar sem hún fjallar nákvæmlega um það viðfangsefni út frá náms- og kennsluaðferðinni smiðjur (workshops)
  • Þessi bók er ein af þremur bestu bókum sem ég hef lesið í vetur í námi mínu um nám fullorðinna. Hún opnar fyrir mér nýja sýn á smiðjur og hjá mér hefur vaknað mikill áhugi á að nýta hana í skipulagningu og námi fullorðinna sem ég mun koma að í framtíðinni.

 

 

 

Mars 2015

Eyjólfur Guðmundsson: Nemandi á menntavísindasviði Háskóla Íslands í M.Ed. í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á nám fullorðinna.  Í námsorlofi 2014-2015 sem skólameistari Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu.

 

 

Þessi bókardómur er unninn þannig að hann geti verið gjaldgengur í tímaritið Uppeldi og menntun.  Varðandi bókadóma stendur þar:

„F. Ritdómar, greinar um bækur, viðhorf, viðtöl og annað efni
Tímaritið birtir ritdóma, greinar um bækur, viðhorf, viðtöl og annað efni sem þykir hæfa eftir því sem ástæða er til hverju sinni. Almennt gildir um þetta efni að ritstjórar hafa frumkvæði að því en þiggja ábendingar og hugmyndir um þess háttar efni.

Sérstaklega er tímaritið áhugasamt um að fá ritdóma um íslenskar fræðibækur, bækur um fagleg málefni ætluð fagfólki eða almenningu og námsefni. Einnig um erlendar fræðibækur ef þær teljast eiga erindi við íslenskt fræðasamfélag.

Einnig vilja aðstandendur þess birta ritdóma um námsefni og annað efni fyrir fagfólk, svo sem prentað efni, hljóðefni og vefsíður, ef efnið telst verðskulda slíka umfjöllun. Ritdómur skal vera á bilinu 1000–1500 orð að jafnaði og skulu koma fram nákvæmar upplýsingar um bókina eða efni sem ritdómurinn fjallar um..”

Sótt 27.2. 2015 af : http://vefsetur.hi.is/uppeldi_og_menntun/leidbeiningar_fyrir_greinarhofunda_og_ritryna_uppeldis_og_menntunar

Innihaldlýsing og uppbygging bókarrýninnar er að mestu byggður á Verkefnislýsingu í námskeiðinu og Skipulag og framkvæmd náms með fullorðnum á vorönn 2015 og Guidelines for Authors Journal of Adult Education

„Book Reviews. Describe the content of a book, evaluate the book’s success in accomplishing

the intended purpose, and give a recommendation based on the book’s relevance and benefits to adult education professionals. Maximum length: 1,000 words. Do not include an abstract.”

Sótt 24.2. 2015 af https://www.mpaea.org/docs/JAEAuthorGuidelines.pdf

Leave a Reply