Bókadómur um “Voksenundervisning – Formidling i praksis”

Voksenundervisning
Formidling i praksis

Höfundar: Mogens Christiansen og Gert Rosenkvist.
Hans Reitzels Forlag, Kaupmannahöfn 2008.
ISBN: 978-87-412-5155-4.
Þegar að ég í lok janúar hélt aftur til Spánar eftir að hafa tekið þátt í staðlotunni heima á Íslandi, ferðaðist ég í gegnum Kaupmannahöfn. Ég notaði tækifærið og fór í Akademikernes boghandel rétt hjá Vor Frue Kirke í hjarta Kaupmannahafnar. Ég hafði að sjálfsögðu í huga bækur um fullorðinsfræðslu, svona almennt, en þó einkum og sér í lagi ætlaði ég að reyna að finna eitthvað bitastætt um mat og matsaðferðir á þekkingu fullorðinna. Það var nú ekki svo mikið sem ég fann um það, en þess í stað keypti ég tvær bækur sem báðar fjalla um fullorðinsfræðslu, þó nálgunin sé gjörólík. Sú sem hér er til umfjöllunar er eftir tvo menn, þá Mogens Christiansen og Gert Rosenkvist, en báðir eru miklir reynsluboltar í því að halda námsskeið fyrir fullorðna í fyrirtækjum. Þessi bók er því eins konar handbók í öllu því er lýtur að fullorðinsfræðslu.
Í upphafi taka höfundarnir það fram, að bókin sé ekki kennslufræðileg grunnbók, þar sem gerð er grein fyrir helstu straumum og stefnum í kennslufræði fullorðinna. Bókin er fyrst og fremst ætluð þeim sem hafa haldgóða faglega þekkingu innan síns sérsviðs, sem þeir vilja miðla til annarra, án þess að hafa endilega aflað sér neinar sérstakar kennslufræðilegar forsendur til þess að takast á við það verkefni. Þess vegna er bókin hugsuð þannig, af hálfu höfunda, að sá sem ekki hefur kennt áður, getur tekið hana sér í hönd og fengið hugmynd um hvar hann eigi að byrja og hvað best sé að gera. Ég geri ráð fyrir því að það sé þess vegna sem að bókin er þannig upp byggð, að auðvelt er að finna hvar upplýsingar um hin ýmsu efnisatiði er lúta að skipulagningu kennslu.
Bókin telur 191 blaðsíður og er þeim skipt í 15 kafla um allt frá almennri umfjöllun um fullorðna námsmenn og að hvaða leyti þeir eru frábrugðnir ungum námsmönnum, að góðum ráðum og „trixum“ um tækniatriði á vettvangi kennslustofunnar. Þar að auki eru í lok bókarinnar ýmis fylgiskjöl; t.d. um hvernig hægt er að láta hópana skiptast upp, þannig að hugmyndir og umræður fari/flytjist á milli hópanna, tafla sem auðveldar setningu atferlismarkmiða og tillögur að aðferðum til að fá endurgjöf frá nemendum að námsskeiði loknu, svo eitthvað sé nefnt.
Satt best að segja, held ég að þeir sem kynnu að vilja hefja kennslu fullorðinna, án nokkurrar kennslureynslu, myndu að minnsta kosti hugsa sig tvisvar um, í kjölfar lestursins. Ég valdi að segja frá þessari bók, frekar en mjög svo þekktri og viðurkenndri bók Illeris, sem heitir „Læring“, er að þessi bók gæti hentað ágætlega hópum sem hafa þekkingu og innsýn í hvernig skipuleggja eigi nám með fullorðnum. Eintakið sem ég keypti er 2. útgáfa , sem getur verið ákveðin vísbending um að bókin hafi spurst út og selst. Ef svo er, er það vegna þess að í bókinni er farið mjög breitt yfir efnið og fjallað um það af þekkingu og innsýn. Það er ekki fjallað djúpt um kenningar í kennslufræði fullorðinna, heldur gefnar upplýsingar og ráð sem í raun eru meira í ætt við „common sense“ en djúphugsaðar og vísindalegar rannsóknir um fullorðna námsmenn. Til merkis um þetta er, að einungis þrjár bækur eru gefnar upp á lista yfir tilvísanir. Þær tilvísanir má hinsvegar á vissan hátt flokka sem „þungavikt“. Ein bókin er eftir danskan heimspeking, og svo eru gefnar upp tvær rannsóknir sem fjalla annars vegar um samhengi menntunar og samfélagslegs jöfnuðar og hins vegar áhrif menntunar á fagvitund. Eitt sem mér þótti líka svolítið „öðruvísi“ í þessari bók, að í fylgiskjölunum sem eru aftast í bókinni, er sérstaklega tekið fram að með leyfi höfunda og útgáfufyrirtækis er hægt að prenta skjölin út á heimasíðu Hans Reitzels forlag, sem gefur bókina út.
Ég vil taka það skýrt fram, að ég upplifi bókina á engan hátt yfirborðskennda eða óáreiðanlega, þrátt fyrir að höfundar gefi sig ekki út fyrir að vera sérmenntaðir í kennslufræðum. Báðir eru þeir úr einkageiranum þar sem þeir eru eigendur og starfsmenn fyrirtækja á sviði mannauðs þróunar (SimCorp og Rosenkvist Consult) . Reyndar þykir mér bókin byggja á danskri hefð, þar sem að í Danmörku er löng og rík hefð fyrir útgáfu sjálfshjálparbóka um allt milli himins og jarðar. Og satt að segja held ég að þessi aðgengilega handbók geti aukið gæði í kennslu hjá þeim sem að ekki hafa neinar sérstakar forsendur, utan eigin fagþekkingar, til að takast á við það verkefni að miðla eigin þekkingu áfram til annarra.
Ástæðan fyrir því að ég valdi að kynna þessa bók, fremur en verk Illeris „Læring“ fyrir ykkur er tvíþætt. Ég er sannfærð um að mörg okkar eiga í framtíðinni eftir að rekast á greinar og umfjallanir eftir Illeris og vita samstundis að það er áhugaverð lesning. Þessir tveir höfundar eru hins vegar ekki þekktir, amk. ekki á Íslandi svo ég viti til, þannig að mér fannst mun ríkara tilefni til að koma nöfnum þessara höfunda og bókinni þeirra á framfæri, því ég held að hún geti verið afar gagnleg og skemmtileg viðbót við allt það sem við í vetur höfum lært um skipulagningu og framkvæmd á námi með fullorðnum.

Á Spáni í maí 2015,

Auður Leifsdóttir.

One thought on “Bókadómur um “Voksenundervisning – Formidling i praksis””

Leave a Reply